17.4.2022 | 12:49
Opið bréf til Mennta og menningarmálaráðherra (mbl.is mars 2022)
Hætt er við að 60% allra starfa hverfi í Þýskalandi á næstunni. Sum hverfa næstum alveg eða rýrna um 98%, önnur minna. Störf sem tölvutækni og gerfigreind getur tekið yfir eru líklegust til að hverfa. Lyftara- og lagerstarfsmenn, bréfberar, bókasafnsfræðingar og bankastarfsfólk. Störf átján milljóna Þjóðverja munu hverfa hjá þessari rúmlega 83 milljóna þjóð. Það sama er að gerast í Frakklandi og um alla Evrópu. Hvort sem við tölum um að þetta sé þriðja eða fjórða iðnbyltingin þá tala staðreyndirnar sínu máli. Heimurinn er að breytast hratt og Ísland hluti af þessum heimi. Heimi sem er að ganga í gegnum stórkostlega miklar varanlegar breytingar, byltingu.
Mörg stórfyrirtæki munu hverfa eins og fyrirtæki sem framleiddu og seldu filmur í myndavélar. Stafræn tækni tekur við og framkvæmir störf betur en menn. Við sjáum þetta gerast nú þegar úti í búð, þar sem einn starfsmaður lítur eftir tíu sjálfsafgreiðslukössum og bráðum hverfur þessi eini starfsmaður líka. Störf sem krefjast mikillar menntunar eru einnig að hverfa og koma ekki aftur.
Við Íslendingar stjórnum ekki heiminum. Við erum þátttakendur og getum lítið annað gert en að taka því sem að höndum ber þegar heimurinn þróast. Ísland þarf að vera samkeppnishæft. Það er ýmislegt sem menn telja að tölvur geti seint eða aldrei lært að gera, það er hæfni í mannlegum samskiptum. Það er að geta unnið með öðrum, umhyggja, samúð, samhyggð, sköpunargáfa og svo framvegis.
Hlutverk skólanna er stórt í þessari framtíðarsýn. Framhaldsskólarnir þurfa að geta tekið þessi 60% inn og menntað til annarra starfa. Grunnskólarnir þurfa líka að bregðast við þar sem móta þarf stefnu með sýn á komandi framtíð. Kennarar þurfa að símennta sig og taka þátt í þessum breytingum sem eru ekki að koma, þær eru í gangi núna. Framhaldsskólakennarar þurfa tækifæri til endurmenntunar og símenntunar til að geta leitt og aðstoðað samfélagið í gegnum þessar hröðu breytingar. Vilji Ísland vera samstíga nútímanum og vera samkeppnisfært í nánustu framtíð þá þarf mennta- og menningarmálaráðuneytið að spila þar risastórt hlutverk. Nýr kjarasamningur er hóflegt skref í þá átt að halda góðum kennurum að störfum í framhaldsskólum. Til þess að ná utan um verkefni næstu ára þarf ráðherra menntamála nú að stíga fram, fjölga námsorlofum og afnema eins skiptis regluna. Á sama tíma þarf að leita leiða til að umbuna þeim kennurum sem tilbúnir eru til að taka þátt í að leiða menntakerfi Íslands inn í nýja tíma.
Um bloggið
Baldvin Björgvinsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.