9.9.2009 | 14:58
Hversdagshugleiðingar
Það er margt sem svífur um í huganum þessa dagana. Taka ákvörðun um málsókn á hendur bankanum sem er búinn að brjóta á okkur lög og er að rukka inn allt of háar upphæðir.
Unga konan á bílnum fyrir aftan mig sem flautaði á mig í morgun þar sem ég var búinn að stoppa við gangbraut til að hleypa börnunum yfir götuna rétt við skólann. Það er nú bara ekki í lagi með suma, enda fór ég út úr bílnum og spurði hana nokkurra spurninga um þekkingu hennar á umferðarreglum.
Náunginn sem spólaði af stað á gangbrautarljósunum við kolaportið á laugardaginn og ég hélt hann ætlaði að aka yfir konuna sem var að staulast yfir með göngugrindina.
Það hlýtur að vera eitthvað að ökukennslunni í þessu landi.
Um bankana.
Ég er, eins og margir aðrir, með svokallað gjaldeyrislán. Nú benda vísir menn á að það er hreinlega ólöglegt að reikna vexti og afborganir lána með þessum hætti. Því miður heyrist ekki múkk í neinum sem ætti að bregðast við svona ábendingum. Nú veit ég að það er búið að benda hverjum einasta þingmanni á þetta og þar með ráðherrum. Hvað með Fjármálaeftirlitið? Hvað með Ríkissaksóknara eða ríkislögreglustjóra?
Það skyldi þó ekki vera að það verði hlutverk þess góða fólks sem tengist BH að taka á þessu máli eins og svo mörgu öðru?
Ég hef samband við lögfræðinginn minn í dag og set hann í málið. Ég ætla að lögsækja bankann.
Um heiðarleg viðskipti.
Ég kaupi ekki þýfi og ég versla ekki við þjófa.
Eftir að olíufélögin urðu uppvís að því að stela af viðskiptavinum sínum með því að hafa samráð um verðlagningu þá hætti ég að versla við þau.
Ég kaupi eldsneyti af Atlantsolíu og engum öðrum. Þar að auki er það alltaf ódýrast. Ég er félagi í Fíb og fæ það mikinn afslátt að það marg borgar sig til viðbótar við ódýrasta verðið.
Ég er hættur viðskiptum við bankann minn fyrrverandi, veit varla hvað hann heitir lengur, Kúlubanki, Kb, kaupþing eða eitthvað, Búnaðarbankinn hét hann þegar viðskipti mín við hann hófust. Síðan þá hefur hann endalaust skipt um nafn og kennitölu eins og hver annar þjófur sem er að fela sljóð sína. Þangað kem ég aldrei aftur ótilneyddur. Mér varð flökurt þegar ábyrgðir yfirmanna bankans voru felldar niður.
Ég hef hvatt fólk og mun hvetja fólk áfram til þess að eiga viðskipti við heiðarleg fyrirtæki.
Nú eru bara tveir bankar eftir í landinu sem ekki hafa farið um koll í ruglinu:
Í raun og veru eru bara þessir tveir bankar eftir á Íslandi, hinir eru allir farnir á hausinn og tóku þjóðina með sér. Eigendurnir hirtu gróðann en láta þjóðina um skuldirnar.
Sparisjóður suður húnvetninga og Sparisjóður strandamanna. Þessir tveir bankar sjá ekki fram á að þurfa að sækja fé í ríkissjóð, í okkar vasa, til að halda áfram starfsemi sinni. Þeir voru ekki í neinum rugl lánveitingum kúlulána og þessháttar.
Ég mæli með því að fólk opni reikninga í þessum tveim bönkum og leggi fé sitt þar inn. Þetta eru einu bankarnir sem hafa sýnt að þeim sé treystandi fyrir því að geyma peninga og eru ekki á leiðinni á hausinn. Ég get ekki talið MP banka með því hann á eftir að vinna sér traust.
Ég hef opnað reikning hjá Sparsjóð strandamanna á Hólmavík. Sá banki varð fyrir valinu einfaldlega vegna þess að faðir minn var frá Hólmavík, Björgvin sonur Guðmundar og Rósu. Þar sem ég þekki hugarfar strandamanna ágætlega þá skil ég vel að þar hafi bankinn verið rekinn af skynsemi.
Ég hvet aðra íslendinga til að snúa baki við þeim sem hafa svikið þá og snúa sér að viðskiptum við heiðarlega banka og heiðarlegt fólk.
Nú styttist í að við getum verslað við enn einn aðilann sem hefur bent á siðleysi og lögbrot en verið hlegið að eins og Helga Hós. Jón Gerald Sullenberger er búinn að fá nógu marga í lið með sér til að opna matvöruverslun í samkeppni við Baug.
Smartkaup mun opna verslun á miðju höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi eftir mánuð. En vonandi bara sem fyrst. Ég hvet fólk til að snúa viðskiptum sínum þangað hvenær sem mögulegt er. Ég veit að það er erfitt að láta enda ná saman og vona að hægt verði að bjóða jafn lágt verð og hjá hinum.
Stóra málið
Það væri að bera í bakkafullann lækinn að fara að fjalla um Hagsmunasamtök heimilanna og það góða starf sem þar fer fram.
Það eru um það bil 30.000 fjölskyldur á leiðinni í gjaldþrot. Það er þriðja hver fjölskylda á landinu. Það er ekki að sjá að ríkisstjórnin ætli að gera neitt í því máli. Eini aðilinn sem er raunverulega að gera eitthvað er HH, sjálfboðaliðasamtök almennra borgara.
Ég hvet fólk til að ganga í lið með þeim, sjálfur er ég ekki með húsnæðislán en ég styð samtökin heilshugar. Heimasíðan er: heimilin.is
Að öðru leiti langar mig að hvetja fólk almennt til að standa með sannfæringu sinni eins og Helgi Hóseason gerði. Að gefast aldrei upp, halda áfram sama hvernig veðrið er sama hvernig allir virðast vera ósammála þér. Ef þú veist betur innst inni, þá skiptir engu máli hvað aðrir segja. Þú munt geta sagt að lokum: "Ég var búinn að segja það", eða Æ tóld jú só!
Jafnvel þó það verði ekki fyrr en eftir að maður er farinn yfir móðuna miklu.
Um bloggið
Baldvin Björgvinsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk nafni fyrir baráttuandann.
Baldvin Jónsson, 9.9.2009 kl. 19:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.