Alvarleg mótmæli í uppsiglingu í London

Hér í London, þar sem ég er staddur, er boðað til mótmæla á morgun, laugardag. Allir lögregluþjónar hafa verið kallaðir úr leyfi og aukamönnum bætt við. Greinilegt er að búist er við átökum.

Bankamönnum er ráðlagt að "dress down" eða klæða sig eins og almenningur. Sumir halda því jafnvel fram að búast megi við að bankamenn hangi í ljósastaurum næstu daga.

G20 samkoman sem verður hér næstu viku mun verða vettvangur mikilla átaka lögreglu og mótmælenda, samkvæmt fjölmiðlum.

Í fréttum hefur verið talað um það undanfarna daga að margir bankar og eftirlitsaðilar hafi sofið á verðinum og jafnvel lagt stórar fjárhæðir inn í íslensku bankana nokkrum dögum áður en þeir féllu. Margir eru reiðir.

Mótmælagangan "Put people first, march", sú stærsta síðan Íraksstríðinu var mótmælt, hefst kl. 11 að morgni á morgun laugardaginn 28 mars á Viktoria Embarkment. Gengið verður gegnum miðbæ London, framhjá Westminister, til Hyde Park þar sem fundur hefst kl 14:30. Stjórnleysingjar verða einnig með annan fund í garðinum.

Eftirmyndir bankamanna verða brenndar og ísklumpur látinn bráðna á tröppunum hjá Bank of England.

Það er óhætt að segja að löggæslan óttast alvarleg átök og að bankafólk verði alvarlega fyrir barðinu á ósáttum mótmælendum.

Íslendingar í Nígeríusvindli

Mannorð íslendinga, sem heiðarlegs fólks, var notað til að plata stórfé út úr öllum sem hægt var að plata peninga út úr.

Nú er Ísland þekkt um allan heim sem Nígería norðursins. Mannorð okkar er gjörsamlega í rúst.

Allt var þetta ekkert skárra en eitt allsherjar Nígeríupíramídasvindl þar sem búið er að koma öllum þeim fjármunum undan sem hægt var, og enn er verið að.

Almenningur, sem aldrei skrifaði upp á ábyrgðir á einu eða neinu hjá þessu glæpaliði á síðan að borga þjófnaðinn í topp, með vöxtum og verðbótum.

Ég segi: Nei takk!


mbl.is Lentu í höndunum á ævintýramönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eiga atvinnulausir að gera?

Nú um þessar mundir missir fjöldi fólks vinnuna til viðbótar við þær þúsundir sem voru atvinnulausir fyrir. Hvað á allt þetta fólk að gera með líf sitt á næstunni? Svarið er; að breyta til og horfa nokkur ár fram í tímann. Fólk er ekki að missa vinnuna vegna þess að það sé eitthvað að því persónulega. Það eru bara breytingar í samfélaginu, breytingar sem allt aðrir aðilar bera ábyrgð á.

Endurskipulagning er auðvitað nokkuð sem þeir atvinnulausu þurfa að framkvæma. Öll gömlu gildin, markmiðin og draumarnir eru endurskoðaðir. Flestir lækka það mikið í launum að endurskoða þarf allan óþarfa kostnað. Það eru ekki margir hlutir sem maður hreinlega verður að gera. Maður verður að borða, sofa, fara á klóið og við Íslendingar þurfum auk þess að hafa þak yfir höfðuðið. Allt annað er þegar vel er að gáð aukaþarfir sem eru æskilegar, en ekki nauðsynlegar. Þannig er hægt að losa sig við ýmiskonar óþarfa eins og áskriftir að hinu og þessu. Keyra bílinn minna, taka hann af númerum eða selja hann, hjóla og labba meira eða yfirleitt draga hressilega úr og jafnvel sleppa öllum óþarfa. Matur og húsaskjól er aðalatriðið.


Þegar maður missir vinnuna hefst nýtt og skemmtilegt tímabil í lífinu. Það getur verið hundfúlt til að byrja með, en útkoman verður alltaf jákvæð, þegar litið er til baka eftir nokkur ár. Þetta er tækifærið sem beðið var eftir. Tækifæri  til að breyta til og komast í betra og skemmtilegra starf. Tækifæri til að losna undan áþján efnishyggjunnar og efla andann, mennta sig og bretya til og jafnvel flytja eitthvert burt. Því miður virðist mega ráða af orðum menntamálaráðherra og störfum ríkisstjórnarinnar að ekki eigi að leyfa atvinnulausum að vera á atvinnuleysisbótum samhliða námi. Það breytir ekki því að möguleikarnir eru til staðar bæði hér á landi og erlendis. Mikilvægast er að mennta sig til nýrra starfa, sækja í nýsköpun og ný störf.

Það má til sanns vegar færa að þeir sem missa vinnuna núna voru í störfum sem eru orðin óþörf og því er ekkert annað að gera en að taka aðra stefnu í lífinu. Fólk sem vill endilega vera í samskonar vinnu áfram, þarf að skoða hvort það geti fengið sambærilega vinnu í öðru landi. Má þar til dæmis benda á vel launuð störf á norskum og enskum olíuborpöllum fyrir iðnaðarmenn og aðra tæknimenntaða aðila í þeim iðnaði almennt. Eftir nokkur ár vantar svoleiðis fólk á Íslandi, nú er tækifærið. Um allan heim eru Íslendingar eftirsóttur starfskraftur enda eru þeir duglegir til vinnu og ósérhlífnir. Norðurlöndin hafa notið vinsælda meðal Íslendinga til að sækja þangað bæði vinnu og menntun. Íslendingar ganga mjög auðveldlega inn í öll norræn samfélagskerfi en vegna EES samningsins þá eru öll ESB lönd Evrópu atvinnumarkaður okkar. Kanadabúar af íslenskum ættum hafa verið að bjóða íslendingum til sín undanfarið, sérstaklega til Gimli.

Fyrir þá sem alls ekki vilja flytja burt frá landinu þá er einn besti kosturinn að sækja sér breytta menntun. Þetta hefur nú þegar fjöldi fólks gert og gerir nú áhlaup á háskólana, þar sem það sækir í að mennta sig til annarra starfa. Fyrir þá sem ekki eru með háskólaundirbúning má til dæmis benda á kvöldskólana. Fjölbrautaskólinnn í Breiðholti hefur rekið vinsælasta kvöldskólann. Af öðrum má nefna Menntaskólann í Hamrahlíð og sívinsælt fjarnám hjá Menntaskólanum í Ármúla.

Nú á komandi sumri býður Fjölbrautaskólinn í Breiðholti upp á sumarskóla og ýmis námskeið eru í gangi hér og þar.

Skynsamlegast er að leita ráða hjá öllum sem upplýsingar geta gefið. Hjá ráðgjöfum sem sveitarfélögin hafa til taks í tengslum við atvinnuleysisskráningar og námsráðgjöfum skólanna og yfirleitt öllum sem upplýsingar geta gefið. Stéttarfélögin geta líka bent á atvinnumöguleika, en einnig ýmsa peningastyrki sem atvinnulausir eiga rétt á, til dæmis vegna náms. Leitaðu upplýsinga sem víðast og taktu þá ákvörðun sem er best fyrir þig og þína.

Baldvin Björgvinsson
Höfundur er kennari.


« Fyrri síða

Um bloggið

Baldvin Björgvinsson

Höfundur

Baldvin Björgvinsson
Baldvin Björgvinsson

Framhaldsskólakennari. Raffræðingur. Skútusiglari.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • baldvinb launasedill 31des2021
  • heilgrima
  • halfgrima
  • ...jorgvinsson
  • frozenintimebanner.png

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband