Sjanghæjaðir kennarar (jan. 2022)

Sjanghæjaðir kennarar

Foreldrar mínir hafa stundum sagt frá því hvernig sjómenn voru sjanghæjaðir á fyrstu íslensku togarana. Það var gert þannig að einhver vissi ekki hvar hann var staddur vegna áfengisdrykku. Síðan vaknaði hann einfaldlega úti á sjó um borð í togara. Fljótlega, eftir að runnið var af honum, gerði sá hinn sami sér grein fyrir því að hann fengi ekki að borða nema vinna fyrir matnum. Hæfni viðkomandi til sjómennsku skipti ekki máli, enda stigu þeir ekkert allir á land aftur.
Ég sit í stjórn Félags framhaldsskólakennara þar sem ýmislegt er rætt, meðal annars hæfni kennara. Þau eru ófá skiptin þar sem kennarar furða sig á viðhorfi til kennara sem einkennist oft af virðingarleysi og vanþekkingu á starfi þeirra. Öll höfum við verið nemendur og ættum að þekkja framlag kennara til samfélagsins en ljóst er að færri vita hvað gerist þegar nemendur eru ekki viðstaddir. Það er talað um að kennarar hafi of löng og mikil frí, þeir séu alltaf í fríi. Sannleikurinn er sá að vinnutími kennara er vel rúmlega 40 stundir á viku þegar kennt er. Það er engin sekúnda gefin.
Furðulegasta útspil seinni ára var tillaga um að greiða 75 þúsund krónur fyrir að fá einhvern til að vinna á leikskóla. Þessi tillaga var eiginlega dropinn sem fyllti mælinn, en þar kristallast viðhorf svo margra til kennarastarfsins að það sé hægt að fá bara hvern sem er í það. Sumir líta augljóslega á skólana sem barnagæslu og ekkert annað. Það viðhorf virðist meðal annars skína í gegn hjá sumum ráðherrum. Já, það er eitthvað mikið að.
Það hefur því miður verið stundað árum saman að fá bara einhverja til að kenna á öllum skólastigum, eins og það sé bara sjálfsagt og ekkert mál. Þessir aðilar fá oft starfsheitið leiðbeinendur, aðstoðarfólk eða eitthvað álíka. Á leikskólum á höfuðborgarsvæðinu er algengt að hlutfall leikskólakennara í starfsliðinu sé kringum 20% þegar lög segja að lágmarkið sé 67%. Í sumum skólum er enginn kennari nema skólastjórinn.
Það þurfa allir að fara að gera sér grein fyrir því að kennsla er sérfræðistarf sem byggir á áralöngu sérfræðinámi í kennslufræðum. Það er ekkert hægt að taka bara þann næsta sem gengur framhjá og skutla inn í kennslustofu eða fá 75 þúsund kall fyrir að plata Jóa frænda eða Gunnu systir til að ganga í sérfræðistarf kennarans.
Kennarar þurfa að uppfylla þær kröfur að kunna námsefnið fullkomlega. Framahaldsskólakennari í til dæmis rafiðngreinum er, rafmagnstæknifræðingur, rafmagnsverkfræðingur, rafmagnsiðnfræðingur, raffræðingur eða rafvirkjameistari. Auk þess þarf framhaldsskólakennarinn, eins og aðrir kennarar að vera menntaður í kennslufræðum. Það sama á við um alla kennara, þeir eru sérhæfðir á sínu skólastigi, í því sem þeir kenna, allt frá leikskóla og uppúr. Auk þess þurfa kennarar að uppfylla siðferðiskröfur samfélagsins um að vera góðar fyrirmyndir því allir kennarar kenna ekki bara námsefnið heldur eru þeir mikilvægur hlekkur í mótun og siðferðisvitund samfélagsins, þeir eru að móta framtíðina. Er ekki kominn tími til að hætta að gefa afslátt af kröfum til kennara, hætta að sjanghæja í störf kennara? Sýna metnað og fara að ráða sérfræðinga þar sem þeir eiga að vera lögum samkvæmt.

Baldvin Björgvinsson, stjórnarmaður í Félagi framhaldsskólakennara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldvin Björgvinsson

Höfundur

Baldvin Björgvinsson
Baldvin Björgvinsson

Framhaldsskólakennari. Raffræðingur. Skútusiglari.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • baldvinb launasedill 31des2021
  • heilgrima
  • halfgrima
  • ...jorgvinsson
  • frozenintimebanner.png

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 14080

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband